Þórsarar völtuðu yfir Valsmenn

Segja má að Þórsarar hafi hreinlega jarðað lið Vals í kvöld þegar þeir sigruðu með 106 stigum gegn 74. Lið Valsmanna sá ekki til sólar frá því snemma í 2. leikhluta og Þórsarar létu körfunum rigna yfir þá allt til enda. Loksins komin samstilling á lið Þórsara sem hefur gengið brösuglega í Subway deildinni það sem af er vetri. Nú er bara að halda stemningunni og stefna á úrslitakeppnina.

Stigahæstur Þórsara var Vinnie Shahid með 26 stig, 11 stoðsendingar og 5 fráköst. Styrmir Snær Þrastarson skoraði 19 stig, átti 6 stoðsendingar og tók 8 fráköst. Fotios Lampropoulos og Pablo Hernandez voru báðir með 13 stig.

Kári Jónsson var stigahæstur Valsara með 16 stig, Callum Lawson með 15 stig og Frank Booker með 14 stig.

Gaman var að sjá ungu kynslóðina af bekknum spreyta sig í lok 4. leikhluta en allir leikmenn Þórs komust á blað í leiknum.