Bras í bústað – Stelpuhelgi hjá Leikfélagi Hörgdæla

Blaðamaður Hafnarfrétta brá sér norður um síðustu helgi, nánar til tekið á Mela í Hörgársveit en þar sýnir Leikfélag Hörgdæla Stelpuhelgi um þessar mundir. Höfundur verksins er Karen Schaeffer og þýðandi Hörður Sigurðarson. Gunnar Björn Guðmundsson leikstýrir þessum skemmtilega farsa sem nú er sýndur í fyrsta sinn á Íslandi. Verkið fjallar um fjórar konur sem fara saman í sumarbústað til þess að eiga góða helgi saman, drekka vín og njóta lífsins. Fljótlega koma í ljós alls kyns flækjur sem verða til þess að plönin fara út um þúfur og við tekur æsispennandi atburðarás þar sem hver vitleysan rekur aðra.

Áhorfendur hlógu mikið alla sýninguna og var töluverður kraftur í leikurum sem túlkuðu hinar ýmsu ólíku persónur af mikilli snilld. Fanney Valsdóttir í hlutverki Dot var óviðjafnanleg, tímasetningar allar ,,spot on” og virkilega gaman að fylgja henni í ferðalag með óminnishegranum. Eyrún Arna Ingólfsdóttir var stórkostleg í hlutverki Ellie og klárt mál að hún á eftir að láta að sér kveða í leiklistinni í framtíðinni. Freysteinn Sverrisson kitlaði hláturtaugarnar með sínum kauðslega karakter sem í einfeldni sinni lendir í hinum ýmsu uppákomum og samleikur þeirra Særúnar Elmu Jakobsdóttur sem lék kærustu hans Carol var þéttur og trúverðugur. Jenný Dögg Heiðarsdóttir átti líka góða spretti í hlutverki Meg og má segja að hún hafi þurft að halda í ansi marga þræði gegnum sýninguna til að ekki kæmist upp um leyndarmálin. Samspil hennar og Brynjars Helgasonar í hlutverki Stephen var býsna vel útfært. Lúðvík Áskelsson fór á kostum sem Tom lögga og Þorkell Björn Ingvasson sem lék sveitalúðann Bubba var algjörlega í réttu hlutverki.

Leikmyndin var hönnuð af Hafrúnu Bylgju Guðmundsdóttur og var hreint út sagt stórkostleg. Öll smáatriði á sínum stað, brak í gólfinu eins og vera ber í gömlum sumarbústað, eldstæði sem virkaði og allar útgönguleiðir voru mjög trúverðugar, sérstaklega kjallarinn sem sumir þurftu að fá að kynnast heldur hressilega. Það er alveg hreint magnað hvað er hægt að gera stóra leikmynd á þessu þrönga sviði. Tæknimenn stóðu sig vel og lýsingin var vel útfærð. 

Það er alveg þess virði að skella sér norður í leikhús á Melum. Sýningar eru í fullum gangi og hægt að kaupa miða á Tix.is. Hafnarfréttir mæla eindregið með Stelpuhelgi hjá Leikfélagi Hörgdæla.