Allt um kring – Heiðrún Elva opnar myndlistarsýningu

Sýningin ,,Allt um kring“ opnaði í dag í Galleríi undir stiganum. Það er Heiðrún Elva Björnsdóttir sem á heiðurinn af verkunum á sýningunni en hún er 23 ára gömul, fædd og uppalin í Þorlákshöfn. Hún stundar nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og mun útskrifast þaðan vorið 2024.

Verkin á sýningunni eru öll tileinkuð íslenskri náttúru og lífríki landsins. Sjá má myndir af fjöllum, jöklum, fuglum og húsdýrum. Myndirnar eru flestar unnar í forritunum Procreate og Illustrator.

Fjöldi fólks mætti á opnun sýningarinnar og vöktu myndirnar mikla athygli. Um er að ræða sölusýningu sem opin verður út júnímánuð.