Tímamót hjá næstum 60 ára Kvenfélagi Þorlákshafnar

Kvenfélagskonur í Þorlákshöfn hafa frá stofnun félagsins 9. maí 1964 unnið óeigingjarnt og fórnfúst starf í þágu samfélagsins. Víða má sjá áþreifanleg merki þess svo sem Skrúðgarðinn, altaristöfluna í kirkjunni og listaverkið við Ráðhúsið.

Þetta er það sjáanlega en auk þess hefur félagið stutt við stofnanir í sveitarfélaginu, fjölskyldur og einstaklinga sem átt hafa við veikindi og eða erfiðleika að stríða.

Velvild þorpsbúa í garð félagsins hefur átt stóran þátt í þessu öllu og við erum þakklátar fyrir það.

Helsta fjáröflun félagsins í gegnum tíðina hefur verið með afrakstri af erfisdrykkjum. Nú er svo komið að við sjáum okkur ekki fært að bjóða uppá þá þjónustu lengur þar sem útfarir fara nær untantekningarlaust fram á virkum dögum þegar félagskonur eru bundnar í vinnu. Auk þess hefur endurnýjun félaga ekki verið eins og við hefðum óskað og því álagið mikið á fáum höndum.

Þessi staða er því miður komin upp en vonandi rætist úr og nýjar konur hópast í félagið. Þá getum við vonandi boðið uppá erfisdrykkjur að nýju.

Með vinsemd og virðingu

Kvenfélag Þorlákshafnar