Loft, láð, lögur í Galleríinu undir stiganum

Ágústa Ragnarsdóttir opnar myndlistarsýningu sína Loft, láð, lögur í Gallerínu undir stiganum fimmtudaginn 30. nóvember nk. kl. 17:00. Þar leggur hún áherslu á stærri myndir allar unnar með vatnslitum og blekpennum. Viðfangsefnið er náttúrustemma sótt í stórt sem smátt á lofti, láði og legi og leikið með form, línur og liti á grafískan máta.

Ágústa lærði grafíska hönnun í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist þaðan vorið 1993. Hún starfaði sem grafískur hönnuður í fjölda ára en hefur hallað sér æ meira að hefðbundinni myndlist eftir því sem árin líða auk kennslu í myndlist, hönnun og Fablab við Fjölbrautaskóla Suðurlands og haldið ýmis fjölbreytt myndlistarnámskeið.

Ágústa hefur haldið nokkrar einkasýningar sem og samsýningar með eigin verkum í gegnum tíðina auk þess að eiga nokkrar stórar veggjalistarmyndir á sýnilegum stöðum úti við. Þá hefur hún einnig komið að því að skipuleggja sýningar fyrir aðra. Ágústa heldur úti litla heimagalleríinu Argh! að Reykjabraut 19 í Þorlákshöfn þar sem margir minni gripir, sem ekki eru á sýningunni, eru til sýnis og sölu.

Sýningin verður uppi út desember og opin á opnunartíma Bæjarbókasafns Ölfuss. Auk þess verða auka opnunartímar sunnudagana 3. og 10. desember, sjá nánar í Aðventudagatali Ölfuss á olfus.is og á Facebook-síðu Argh art & design.

Fjólur í felum fyrir vetri – Ágústa Ragnarsdóttir
Flæðarmál – Ágústa Ragnarsdóttir