Frá félagi eldri borgara í Ölfusi

Vetrarstarfið er nú komið á fulla ferð. Starfið hófst með haustferð okkar seinni partinn í september. Mjög góð þátttaka var í ferðinni en um 70 manns tóku þátt. Ferðin hófst um kl. 11 á laugardaginn 23.sept. og var farin hefðbundin leið eftir Suðurstrandarveginum til Grindavíkur þar sem farið var í hádegismat, súpu og brauð, síðan var keyrt um Reykjanesið út í Reykjanesvita með leiðsögumanni. Stoppað var á ýmsum stöðum farið í Útskálakirkju og í vöfflukaffi í Duus húsi í Keflavík. Hljómahöllin skoðuð og síðan var haldið á ný til Grindavíkur og borðað í Salthúsinu um kvöldið. Þar mætti Hljómlistarfólkið Blítt og létt frá Vestmannaeyjum og skemmtu okkur fram eftir kvöldi. 

            Eldri borgarar ásamt nokkrum öðrum frá Akranesi heimsóttu okkur 3. okt. og skoðuðu aðstöðuna á 9-unni, drukku kaffi og áttu síðan gott spjall við íbúa 9-unnar.  Þann 12.10. var haustfundur  haldinn þar sem lagðar voru línurnar fyrir vetrarstarfið sem þó var hafið í nokkrum klúbbum en meðal þess sem nú þegar er á fullu er félagsvist, bridge, boccia, prjónahópur, karlaspjall og fl. Nú, nýverið var haldið konukvöld á veitingahúsi hér í bæ og bingó verður haldið þriðjudaginn 21.nóv.  1. des. er alltaf mikill hátíðardagur hjá okkur. Að þessu sinni verður hátíðin á veitingastaðnum Heima Bistro.  Á síðastliðnum vetri skipulögðum við tónlistarviðburði með listamönnum héðan úr sveitarfélaginu og skemmtu þeir gestum með söng og hljóðfæraslætti. Nú höfum við í hyggju að halda áfram með heimsóknir og  seinnipartinn í desember mun hin unga og stórgóða Emelía Hugrún Lárusdóttir  koma  og syngja fyrir okkur. Margt fleira er síðan framundan í vetur s.s. þorrablótið okkar á Þorranum, kótelettukvöld og fl.

 Þann 12. október, í tengslum við haustfundinn okkar, var tekin í notkun nýbygging við 9-una sem hýsa mun dagdvölina. Er þetta glæsileg viðbygging  sem gerir starfsemina á allan hátt betri og skemmtilegri. 

Það er mikils virði og nauðsynlegt að félagar í félaginu okkar hittist sem oftast bæði í klúbbastarfseminni, sem og hefðbundnum skemmtunum okkar og eins er alltaf gott að koma bara og spjalla um bæjarmálin og önnur þjóðfélagsmál. 

                                                                        Halldór Sigurðsson,

                                                            formaður Félags eldri borgara í Ölfusi