Glænýr listamaður í Galleríi undir stiganum

Þriðjudaginn 6. febrúar opnar ný myndlistasýning í galleríinu en það er Vestmannaeyingurinn og Þorlákshafnarbúinn Árný Sigurðardóttir sem heldur sína fyrstu einkasýningu.

Árný hefur teiknað frá því hún man eftir sér og myndskreytti meðal annars ljóðabókina Skóhljóð aldanna ásamt tvíburasystur sinni, Önnu Kristínu, þegar þær voru einungis tíu ára gamlar.

Það er fremur stutt síðan Árný byrjaði að mála, fyrir tveimur árum færði Anna Kristín henni striga og akríl-liti og eftir það varð ekki aftur snúið. Hún á erfitt með að horfa á auðan striga og byrjar alltaf á að grunna hann með einhverjum lit, að því loknu snýr hún honum á ýmsa vegu þar til grunnurinn segir til um hvert myndefnið á að vera, myndirnar mála sig nánast sjálfar að sögn Árnýjar.

Allar myndir á sýningunni eru til sölu.

Sýningin opnar kl. 17, bókasafnið býður upp á kaffi og konfekt.

Öll velkomin!