Frábær stemning á Þorrablóti í Þorlákshöfn

Þorrablótið í Þorlákshöfn var haldið með pompi og prakt laugardagskvöldið 3. febrúar síðastliðinn. Að blótinu standa þrjú félög, Hestamannafélagið Háfeti, Kiwanisklúbburinn Ölver og Leikfélag Ölfuss. Um 180 manns mættu prúðbúin þegar húsið opnaði og var ljóst frá fyrstu stundu að kvöldið yrði hlaðið skemmtun og stemningu. Ágústa Ragnarsdóttir stýrði veislunni af röggsemi og sagði nokkrar góðar sögur af þorrablótum í gegnum tíðina í Þorlákshöfn. Veisluþjónusta Suðurlands galdraði fram þorramat og tók fólk hraustlega til matar síns. Eftir matinn afhenti veislustjóri viðurkenningar til nokkurra aðila. Þau Sigríður Stefánsdóttir og Njörður Smári Guðmundsson hlutu Hafnarskeiðina 2024 fyrir að mæta vel á alla viðburði í bænum. Þá voru einnig heiðruð hjónin Gunnar Snorrason og Valgerður Ölvirsdóttir eða Bói og Vala en þau hafa sennilega mætt manna best á þorrablót hér í bæ í gegnum tíðina. Þá veitti Ágústa einnig viðurkenninguna Skötubótina 2024 til þeirra sem hafa á einhvern hátt gefið af sér til samfélagsins og voru það Erla Dan Jónsdóttir, Elsa Jóna Stefánsdóttir, Kolbrún Rakel Helgadóttir, Sindri Grétarsson og Magnþóra Kristjánsdóttir auk Sigþrúðar Harðardóttur sem valin var af salnum sem hlutu þá viðurkenningu.

Handhafar viðurkenninga: Sigríður Stefánsdóttir, Njörður Smári Guðmundsson, Erla Dan Jónsdóttir, Magnþóra Kristjánsdóttir, Kolbrún Rakel Helgadóttir, Sindri Grétarsson og Elsa Jóna Stefánsdóttir. Á myndina vantar Sigþrúði Harðardóttur

Þá tók við fjöldasöngur og svo hófust skemmtiatriði að hætti nefndarinnar. Voru þau sýnd í tvennu lagi með örstuttu hléi á milli, samtals um 45 mínútna skemmtiþáttur þar sem gert var góðlátlegt grín að samfélaginu. Hægt er að sjá myndböndin á Facebookviðburði Þorrablótsins 2024. Þorrablótsnefndin endaði svo á því að syngja með salnum brag um sjálfa sig og með því lauk dagskrá kvöldsins.

Hljómsveitin Sunnan 6 steig þá á stokk og hélt fólkinu á dansgólfinu allt til enda í brjáluðu stuði enda strákarnir með eitt besta ballband sem starfandi er um þessar mundir. Kynslóðabilið máðist út og fólk á öllum aldri dansaði við Kokkinn sem og poppslagara þar til balli lauk að ganga þrjú.

Þorrablótsnefnd vill koma á framfæri þökkum til allra sem lögðu hönd á plóg við að gera þennan viðburð að veruleika. Allir sem tóku vel í að koma fram í skemmtiatriðunum eiga sérstakt hrós skilið. Einnig fær Björgunarsveitin Mannbjörg bestu þakkir fyrir frábært samstarf.

Það er strax hægt að fara að hlakka til blótsins 2025.

Hér eru nokkrar myndir frá blótinu.