Nýr leikskóli rís í Þorlákshöfn

Fulltrúar Sveitarfélagsins Ölfus og forsvarsmenn Verkeininingar ehf. hafa skrifað undir samning um byggingu nýs 4 til 6 deilda leikskóla sem byggður verður við Bárugötu 22 í Þorlákshöfn. Um er að ræða 880 m2 fullbúinn leikskóla og er heildarsamningsfjárhæðin 595 milljónir eða rétt um 676 þúsund pr. fermeter. Tilboð Verkeingar var það lægsta af 8 tilboðum sem bárust, um 88% af kostnaðaráætlun.

Áætlað er að með tilkomu hins nýja leikskóla verði til allt að 80 ný leikskólarými í Þorlákshöfn. Í dag er ekki biðlisti eftir plássum en hinum nýja leikskóla er ekki hvað síst ætlað að mæta þörfum vegna vaxandi byggðar og aukinnar þjónustu.

Framkvæmdir við nýjan leikskóla hefjast strax og verður að fullu lokið eigi síðar en 1. sept. 2025.