Júlí Heiðar og Þórdís Birna stíga á svið í forkeppni Söngvakeppninnar á laugardaginn í beinni útsendingu á RÚV kl. 19:45.
Hafnarfréttir heyrðu hljóðið í okkar manni og vildu fá að vita stemninguna í hópnum þegar þrír dagar eru til stefnu. „Það ríkir mikil spenna og eftivænting í hópnum og höfum við verið að æfa nokkuð stíft síðustu daga. Stressið aðeins farið að segja til sín en annars gengur bara ótrúlega vel með atriðið,“ segir Júlí Heiðar en hann samdi lagið Heim til þín sem hann og Þórdís munu flytja á laugardaginn.
Æfingar hópsins hafa gengið vel en þrjú atriði á laugardaginn fara áfram í úrslitin og önnur þrjú næsta laugardag.
„Við komum til með að fara óhefðbundnar leiðir með uppsetningu atriðsins en það mun vonandi koma flott út. Ég held að við eigum eftir að gera höfnina stolta.“ Segir Júlí aðspurður við hverju Ölfusingar megi búast við á laugardaginn.
„Ég vona að allir kaupi sér svo auka inneign á símann og bjalli í 900 9904 á laugardaginn,“ segir Júlí Heiðar léttur í bragði að lokum.