Á næstu vikum verður nýtt ungmennaráð skipað í sveitarfélaginu. Samkvæmt samþykktum ungmennaráðs þá eiga nokkrir aðilar fast sæti í ráðinu eins og t.d. formaður unglingaráðs Svítunnar og formaður nemendaráð Grunnskólans í Þorlákshöfn en íþrótta- og æskulýðsnefnd skipar svo það sem uppá vantar en fimm einstaklingar sitja í ráðinu og fimm eru til vara.
Íþrótta- og æskulýðsnefnd horfir til ýmissa þátta þegar hún velur fulltrúa í ráðið og skiptir þar mestu að kynjahlutfallið sé sem jafnast og að fulltrúar komi bæði úr þéttbýli og dreifbýli Ölfuss. Illa hefur þó gengið að finna fulltrúa úr dreifbýli til að sitja í ungmennaráði seinustu ár. Því vill starfsmaður ungmennaráðs óska eftir áhugasömum einstaklingum á aldrinum 14-20 ára sem hafa áhuga á að sitja í ungmennaráði Ölfuss.
Markmið ungmennaráðs er að veita þeim sem eru 20 ára og yngri fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim kleift að koma skoðunum sínum á framfæri við viðeigandi aðila í stjórnkerfi sveitarfélagsins. Einnig á ráðið að gæta hagsmuna ungmenna ásamt því að efla tengsl ungmenna í sveitarfélaginu og auka tengsl þeirra við stjórnkerfi sveitarfélagsins. Að auki er ungmennaráð bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni ungs fólks í sveitarfélaginu.
Þeir sem hafa áhuga á að sitja í ráðinu eru beðnir um að hafa samband við Val Rafn Halldórsson í síma 868-1895, með tölvupósti, valur@olfus.is eða í gegnum samfélagsmiðla fyrir 4. október nk.