Ingimar: „Getum unnið öll lið í þessari deild á okkar degi“

Ingimar fagnar sæti Ægis í 2. deildinni ásamt liðsfélögum sínum síðastliðið haust. Sunnlenska.is / gk
Ingimar fagnar sæti Ægis í 2. deildinni ásamt liðsfélögum sínum síðastliðið haust. Sunnlenska.is / gk

„Stemningin er alltaf góð hjá okkur, þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki verið nægilega góð undanfarið, þá eru menn brattir og við vitum að við eigum meira inni, það er alveg klárt.“ sagði Ingimar Helgi Finnson leikmaður Ægis aðspurður um stemninguna í hópnum fyrir leik kvöldsins í Njarðvík. „Við höfum verið að spila þokkalega og ættum að okkar mati að vera komnir með fleiri stig á töfluna heldur en raun ber vitni en við munum halda ótrauðir áfram og erum að fá menn til baka úr meiðslum sem munu styrkja okkur fyrir komandi átök.“

hausar_meistarafl-4Eins og fyrr segir leggja Ægismenn í ferðalag til Njarðvíkur í dag og mæta þar heimamönnum klukkan 19:15 í 2. deildinni. Mikilvægt er fyrir strákana að sækja þrjú stig til Njarðvíkur en með sigri kemst Ægir fyrir ofan Njarðvík í 8. sæti deildarinnar en liðið er sem stendur í 10. sæti.

„Við stefnum á þrjú stig í öllum leikjum, þar sem við getum unnið öll lið í þessari deild á okkar degi, leikurinn í dag er engin undantekning.“

Leikirnir undanfarið hafa ekki verið að falla með Ægi og hefur liðið tapað nokkrum dýrmætum stigum í viðureignum sem hefðu átt að vinnast. „Ég trúi ekki öðru en að þetta fari að falla með okkur. Við vorum óheppnir að klára ekki Dalvík/Reyni hér á dögunum, fengum 4-5 dauðafæri til þess að komast í 2-0 og sömu sögu má segja með Sindra á Höfn.“ sagði Ingimar brattur fyrir leik kvöldsins og komandi átök síðari hluta íslandsmótsins.