Góður árangur Þórsara á Landsmóti

Eins og fram hefur komið hér á Hafnarfréttum þá áttu Þórsarar fjórtán fulltrúa á Landsmóti UMFÍ sem fór fram í miður spennandi veðri á Selfossi um helgina.

Lið HSK Landsmótsmeistarar í körfubolta.
Lið HSK Landsmótsmeistarar í körfubolta.

Körfuboltalið HSK átti frábært mót og unnu alla sína leiki og urðu Landsmótsmeistarar. Í liði HSK voru 6 Þórsarar ásamt leikmönnum úr Hamri og FSu en Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs sá um þjálfun liðsins. Þessi sigur HSK liðsins er í raun mjög merkilegur fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn síðan árið 1971 að lið HSK í körfubolta stendur uppi sem sigurvegari en þar áður vann liðið árið 1968 og 1965 sem var fyrsta árið sem keppt var í körfubolta á Landsmóti UMFÍ.

Sundmaðurinn knái, Hjörtur Már, gerði sér lítið fyrir og fékk 5 gull á mótinu í flokki hreifihamlaðra og setti um leið 4 íslandsmet. Frábær árangur hjá Hirti á Landsmótinu.

Lið HSK í frjálsum vann heildarstigakeppnina á mótinu og stóð frjálsíþróttafólk Þórs sig vel en á Landsmótinu var samankomið allt besta frjálsíþróttafólk landsins. Eva lind lenti í 6.sæti í spjótkasti, 2.sæti í kúluvarpi, 4.sæti í 100m grindahlaupi og 4.sæti í sleggjukasti. Fannar Yngvi varð í 6.sæti í þrístökki og 2. sæti í 1000m boðhlaupi en hann hljóp 200m sprettin sem er frábært hjá þessum unga og efnilega frjálsíþróttamanni. Birgir Sólveigarson, aldursforseti Þórsara, lenti 8.sæti í kúluvarpi. Hinn ungi og bráðefnilegi Styrmir Dan gerði góða hluti í hástökki og endaði í 4.-6. sæti.

Badmintonlið HSK átti ekki sitt besta mót um helgina en systkinin Axel Örn og Karen Ýr spiluðu fyrir lið HSK. Litlu munaði þó að liðið næði þriðja sætinu af liði UMSE.