Þorsteinn Már: „Við græddum mikið á Lengjubikarnum“

steini01Þórsarar duttu út úr Lengjubikarnum í körfubolta í gærkvöld þegar þeir töpuðu fyrir Keflavík í 8 liða úrslitum. Hafnarfréttir slógu á þráðin til Þorsteins Más en hann og bróðir hans, Baldur Þór, voru fjarri góðu gamni í leiknum í gær sökum meiðsla.

Þrátt fyrir að hafa dottið út í gær þá telur Þorsteinn að Lengjubikarinn hafi verið mjög góður til að ná liðinu til að spila betur saman. „Við græddum mikið á þessu því við erum með nýja leikmenn sem hafa aldrei spilað með okkur,“ sagði Þorsteinn um það jákvæða sem hægt væri að taka með sér úr Lengjubikarnum sem að þessu sinni er spilaður fyrir deildarkeppnina sjálfa.

Eins og flestir vita er Þórs liðið mikið breytt frá síðasta tímabili og hefur meðal aldur liðsins lækkað töluvert. Þorsteinn er bjartsýnn fyrir komandi tímabil í Dominos deildinni. „Tímabilið leggst mjög vel í mig. Þetta er náttúrulega allt annar hópur heldur en var í fyrra og erum við með mun yngra lið sem er bara skemmtilegt. Við verðum örugglega soldnir „under dogs“ í vetur með svona ungt lið en það verður bara gaman að sýna þeim hvað við getum. Stemningin er góð í liðinu og það er alltaf gaman á æfingum sem er mjög jákvætt,“ sagði Þorsteinn að lokum.

Dominos deildin hefst síðan 11. október hjá Þór en þá mæta þeir liði Snæfells í Stykkishólmi.