Hannyrðir og heimilisstörf á bókasafninu

heimilisstorf01Saumavélar, vefstóll, prjónavélar, taurullur, ryksuga, hesputré og spólurokkur eru meðal þess sem sýnt verður á sumarsýningu Byggðasafns Ölfuss sem opnuð verður fimmtudaginn 30. maí.   Nú er komið að því að sýna þá muni sem byggðasafnið á og tengjast hannyrðum og heimilisstörfum á árum áður.  Þessi störf voru að mestu unnin af konum.  Tekið er mið af því sem er í eigu byggðasafnsins.  Tímabilið er hinsvegar látið liggja milli hluta.  Þarna verður hægt að rifja upp heimilisstörfin hér áður fyrr, en mikið var prjónað og saumað í Ölfusinu og sérlega laghentar konur unnu sér inn smá aukapening með hannyrðum.  Í þessum efnum hafa verið tískubylgjur líkt og í ýmsu öðru sem sýnir sig í því að safnið á t.d.  óvenjumargar prjónavélar.

Leitast verður við að gera sýninguna þannig úr garði að gestir átti sig á því hvernig tækin voru notuð og gefst jafnvel kostur á að prufa undir leiðsögn að sauma eða prjóna.

Sýningin opnar 30. maí klukkan 20:00 á Bæjarbókasafni Ölfuss í Þorlákshöfn.  Á sama tíma verður formleg setning Hafnardaga þar sem nýr bæjarstjóri Ölfuss, Gunnsteinn Ómarsson flytur ávarp, Lúðrasveit Þorlákshafnar spilar nokkur lög og formaður menningarnefndar, Magnþóra Kristjánsdóttir afhendir menningarverðlaun Ölfuss fyrir árið 2013.

Boðið verður upp á kaffi og konfekt af tilefni opnunar.