Makríll unninn allan sólarhringinn í Frostfisk

löndun_báturMakríl vertíðin er komin á fullt skrið í Þorlákshöfn og eru fjögur fyrirtæki í bænum að vinna makríl þetta sumarið en þau eru Auðbjörg, Frostfiskur, Hafnarnes og Rammi.

„Við erum erum búnir að vinna núna í viku allan sólarhringinn og við komum til með að vinna á vöktum alveg út ágúst vonandi“ sagði Þorgrímur Leifsson annar eiganda Frostfisks þegar Hafnarfréttir slógu á þráðinn í dag.

Togbátar alls staðar að af landinu og trillur eru að veiða makrílinn sem unninn er í Frostfisk. „Það er að lágmarki einn togari á dag í löndun hjá okkur og skiptir ferskleikinn miklu máli og að vinna fiskinn hratt og vel en makríllinn er bara annaðhvort heill eða ónýtur, enginn millivegur á því“. Makríllinn er síðan sendur frosinn úr landi með fraktskipi sem kemur orðið vikulega í fyrirtækið að sögn Þorgríms.

Makríllinn sem unninn er í Frostfisk er seldur út til margra landa og má þá nefna Kanada, Rússlands, Jórdaníu og Taiwan svo eitthvað sé nefnt. „Aðalmálið er að vanda sig og hafa gæðin í lagi, þá er heimurinn alveg undir“ sagði Þorgrímur.

Þetta makríl ár er mun betra en það síðasta en þá tók mjög langan tíma að selja fiskinn. „Þetta var bara strögl í fyrra, núna er miklu betri markaður og betri hreyfing og er ástæðan kannski sú að í fyrra var svo mikið af lélegum makríl á markaðnum sem truflaði verðlagningu og annað en í ár er þetta allt mikið hreinna og eðlilegra“ sagði Þorgrímur að lokum.