Fjölmenn Þorláksvaka

thorlaksvaka_mbl1988Í Gamalt og gott að þessu sinni er blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu árið 1988 en hana skrifaði Jón H Sigurmundsson, aðstoðarskólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn en hann tók einnig myndirnar.

Greinin fjallar um fyrstu Þorláksvökuna sem haldin var í Þorlákshöfn 28. maí 1988. Hátíðin var mjög vinsæl meðal íbúa bæjarins og eru margir í dag sem sakna Þorláksvökunnar.

Ef þið lumið á skemmtilegu gömlu efni úr Þorlákshöfn þá megið þið endilega senda okkur á frettir(hjá)hafnarfrettir.is.

 

Fjölmenn Þorláksvaka

MARAÞON tónlistarvaka var haldin í Þorlákshöfn laugadaginn 28. maí. Hátíðin hófst klukkan 13 með því að tvær lúðrasveitir gengu um þorpið og mynduðu skrúðgöngur sem santeinuðust í skrúðgarðinum. Síðan magnaðist stemmningin eftir þvi sem leið og hljómlistin þagnaði ekki fyrr en tólf tímum siðar.

Það var lúðrasveit Þorlákshafnar sem gekkst fyrir þessari miklu tónlistarhátíð og á hún allan heiðurinn. Róbert Darling stjórnandi sveitarinnar fékk þessa snjöllu hugmynd en engin hugmynd verður að veruleika nema til séu framkvæmdamenn. Lúðrasveitin er svo heppin að hafa í sínum röðum framkvæmdasama og jákvæða einstaklinga. Þó allir félagar og aðstandendur sveitarinnar hafi unnið vel sakar ekki að nefna þrjá sem lögðu nótt við dag síðustu vikurnar til að þetta gæti orðið að veruleika. Þessir heiðursmenn eru Hermann Jónsson og bræðurnir Torfi og Gestur Áskelssynir.

Vakan sjálf

Eins og áður segir hófst vakan á því að Lúðrasveit Hveragerðis og Lúðrasveitin Svanur gengu um þorpið þeytandi lúðra og berjandi bumbur. Þegar í tjaldið var komið rak hver tónlistarviðburðurinn annan. Auk áðurnefndra lúðrasveita komu fram á hátíðinni Lúðrasveit Þorlákshafnar, Söngfélag Þorlákshafnar, Kirkjukór Hveragerðis og Kotstrandar, Harmonikkuklúbbur Hveragerðis, Dixielandband Árnessýslu, þjóðlagatríóið KÚL úr Gaulverjabæjarhreppi, Alla Magga og Árni frá Hveragerði ásamt dóttur þeirra, Bergþóru. _ Hljómsveitirnar Ópera og Andrés Önd frá Þorlákshöfn, Sjöund frá Vestmannaeyjum og Liðbandið frá Stokkseyri. Einleikarar voru: Baldur Loftsson harmonikkuleikari, Ari Agnarsson, Róbert Darling, Stefán Þorleifsson píanóleikarar og síðast en ekki síst Árni Johnsen gítarleikari kynnir og stjórnandi í fjöldasöng. Þó þeir sem hér hafa verið taldir séu allir góðir listamenn og sumir hverjir hálærðir er þó ótalinn sá kór sem vakti hvað mesta athygli og dró að sér flesta áhorfendur en það er blandaður kór leikskólabarna. Guðmundur Hermannsson sveitarstjóri Ölfushrepps flutti ræðu við upphaf hátíðahaldanna

Tívolí á svæðinu

Sannkölluð tívolístemmning ríkti á svæðinu enda búið að koma fyrir fjölda leiktækja og þrauta auk þess sem veðrið var eins gott og hægt er að fara fram á á þessum árstíma. Eitt vinsælasta skemmtiatriðið var að brjóta niður píanó sem komið hafði verið fyrir á svæðinu. Ákveðin upphæð var borguð fyrir að berja píanóið og safnast hafði töluverð upphæð áður en Hallgrímur Erlendsson náði að klára að eyðileggja það. Sem dæmi um aðra leiki má nefna skeifukast, pílukast, hestareið og fleira. Vöfflur voru bakaðar og seldar á svæðinu og var það vel þegið og sala góð.

Tilgangur Þorláksvöku safna fé og auka menningu

Að sögn þeirra Hermanns, Torfa og Gests sem aðallega voru í forsvari var tilgangurinn með því að halda Þorláksvökuna tvíþættur. Auraleysi hefur háð okkur svo erfitt hefur verið að endurnýja og kaupa ný hljóðfæri þannig að hér var kærkomið tækifæri að reyna að bæta úr. Ágóði vökunnar er um 170 þúsund auk þess að Hreppsnefnd Ölfushrepps sem ávallt hefur styrkt okkur vel ákvað að gefa okkur aukalega tvo nýja trompeta. Hinn tilgangurinn var sá að auka menningu í Þorlákshöfn og vekja athygli fjölmiðla á þessu. Ekki var selt inn á skemmtunina en til að safna fé var gengið í hús á Árborgarsvæðinu og áheitum safnað. Vel gekk að safna en þegar kom að innheimtu komu margir skemmtilega á óvart með því að stórhækka framlag sitt vegna ánægju með hátíðina, allt að því að menn sögðu, ja bættu bara núlli aftan við.

Þáttur fjölmiðla

Þeir þremenningar Hermann, Torfi og Gestur voru ekki ánægðir með þátt fjölmiðla. Viku fyrir hátíðina voru allir fjölmiðlar látnir vita og þeim send fréttatilkynning. Aftur var haft samband við þá daginn áður og þá voru höfð um það góð orð að mæta á staðinn og gera þessu góð skil. Einn fréttastjórinn tók þannig til orða, „Við komum að því tilskildu að Alþingishúsið brenni ekki.“ Þegar til kastanna kom mættu engir fulltrúar ljósvakamiðlanna og aðspurðir síðar voru ýmsar ástæður nefndar. En þrátt fyrir að kynningin væri ekki eins og vonast var til erum við samt ánægðir og vonumst til að Þorláksvaka verði árlegur viðburður. Að lokum vildu þeir þremenningar taka fram að allir listamenn og aðrir gáfu vinnu sína og eiga þeir allir hinar bestu þakkir skilið.

JHS