Frábær æfingaferð Fimleikadeildar Þórs til Ítalíu

Fimleikar 1Þann 10.ágúst síðastliðin, héldu fimleikastelpurnar okkar í meistaraflokk Þórs af landi brott ásamt fararstjórum og þjálfurum í æfingabúðir til Cesenatico á Ítalíu.

Þar dvöldu þær í viku í Accademia Accrobatica, sem er einskonar fimleikahótel, þar sem fimleikafólk og fylgifiskar geta komið og dvalið og haft aðgang að frábærri fimleikaaðstöðu, einkaströnd og sundlaug. Veðrið var frábært og sólin vel þegin eftir blautt sumar á Íslandi, maturinn var til fyrirmyndar eins og öll sú þjónusta og aðstaða sem boðið var upp á.

Stelpurnar tóku tvær æfingar á dag flesta dagana og voru framfarirnar eftir því. Það var ýmislegt skemmtilegt brallað á milli æfinga, eins og ferð í vatnsrennibrautagarðinn með tilheyrandi öskrum í stærstu rennibrautunum og dansi með ,,gogo stelpunum,, ,  lestarferð til Rimini, þar sem H&M fékk að finna fyrir verslunarglöðum íslendingum, einnig var tekið rölt á ströndinni og í miðbæ Cesenatico, sem er lítill og krúttlegur og síðast enn ekki síst slökun á sundlaugabakkanum, ströndinni og í sjónum.

Fimleikar 2Í heildina ákaflega skemmtileg og lærdómsrík ferð og stelpurnar komu heim mörgum fimleikastökkum ríkari og fullar af metnaði fyrir komandi fimleikaár.

Stelpurnar vilja koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem styrktu þær með einum eða öðrum hætti, þið gerðuð þessa ferð að veruleika fyrir þær. Einnig vilja þær koma á framfæri þökkum til foreldra sinna og aðstandenda sem unnu þrotlausa vinnu í fjáröflunum með þeim.

F.h meistaraflokks Þórs í hópfimleikum, Linda Ósk Þorvaldsdóttir, yfirþjálfari.