Þórsarar í 8 liða úrslit í bikarkeppninni

thor_skallagrimur-10Þórsarar heimsóttu Skallagrím í Borgarnesi í kvöld og áttust liðin við í 16 liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik. Leikar enduðu með 108-80 sigri Þórs sem eru þar með komnir í 8 liða úrslit keppninnar.

Leikurinn var jafn til að byrja með en Skallagrímsmenn voru ávallt skrefinu á undan og staðan eftir fyrsta leikhluta var 29-26 heimamönnum í vil.

Þórsarar snéru dæminu við í öðrum leikhluta og voru, eins og Skallagrímur í þeim fyrri, skrefinu á undan heimamönnum. Þegar leikmenn gengu til búningsklefa í hálfleik var staðan orðin 48-51 Þórsurum í vil.

Seinni hálfleikur var síðan einstefna þar sem Þórsarar tóku öll völd á vellinum og léku við hvern sinn fingur. Skallagrímur átti fá svör við öflugum sóknarleik gestanna frá Þorlákshöfn. Niðurstaðan því 28 stiga sigur Þórs 80-108.

Gaman er að segja frá því að 6 leikmenn Þórs skoruðu meira en 10 stig í leiknum. Mike Cook stóð fyrir sínu að vanda og setti 30 stig. Sovic gerði 19, Tommi 16 og Baldur skoraði 15 stig. Þorsteinn átti einnig flottan leik og skoraði 13 stig og Raggi Nat bætti við 10 stigum og tók 12 fráköst.

Á næstu dögum mun síðan skýrast hvaða mótherjar bíða Þórsara í 8 liða úrslitum.