leikskolalod01Vegna stækkunar leikskólans var ráðist í endurskipulagningu lóðarinnar. Við hönnun lóðarinnar var haft í huga að hún yrði að vera náttúruleg, bjóða upp á fjölbreytta möguleika og að þar væri nægt rými til ólíkra leikja og hreyfingar. Verkefnisstjóri lóðarinnar er Kristbjörg Traustadóttir hjá Landmótun og starfsmenn Grásteins sáu um framkvæmdina, starf þeirra og verkfæri hafa notið mikilla athygli og vinsælda í vetur. Unnið var í áföngum og girðing færð til jafnóðum og verkefnin kláruðust. Fyrir nokkrum vikum var öll lóðin opnuð til afnota fyrir leikskólann.

Við miðja lautina er komin hinn besta sleðabrekka og í hinum endanum eru þrep sem munu nýtast sem áhorfendabekkir og leikhúspallar. Leiktækin eru miserfið og þau sem eru næst húsinu eru fyrir yngstu börnin og þau erfiðustu eru fjærst. Í nýrri lóð verður möguleiki á að rækta grænmeti og þar verða berjarunnar og einnig er væntanlegt bálhús sem gefur skemmtilega möguleika á útinámi og rannsóknarvinnu. Við báða enda á nýbyggingunni eru tveir litlir trépallar og þar verður hægt að sinna afmarkaðari vinnu og bjóða upp á verkefnastöðvar. Svona gott útisvæði er þroskandi, heilsueflandi og umfram allt skemmtilegt.