Þór jafnar metin eftir fjörugan leik

Halldór Garðar setur hér niður sniðskot og fékk víti að auki.
Halldór Garðar setur hér niður sniðskot og fékk víti að auki.

Æsispennandi leikur Þórs og Grindavíkur í Icelandic Glacial höllinni í gærkvöld endaði með sigri heimamanna sem hafa nú jafnað metin 1-1 og mætast í þriðja leiknum í Grindavík á fimmtudag.

Leikurinn var æsispennandi mest allan tímann að undanskildum geysi öflugum kafla Þórsara í öðrum leikhluta þegar liðið komst mest í 17 stiga forskot. Grindavík komu þó sterkir til baka og söxuðu niður forskot heimamanna í seinni hálfleik og komust síðan 5 stigum yfir. Þá gerðu heimamenn út um vonir Grindavíkur með góðum kafla þegar fimm mínútur lifðu leiks og lönduðu að lokum verðskulduðum 98-89 stiga sigri.

Emil Karel Einarsson átti stórleik en hann kom inn af bekknum og lét aldeilis til sín taka og var stigahæstur í liði Þórs með 18 stig. Mike Cook setti einnig 18 stig, Tómas 17, Raggi og Sovic gerðu 14 stig en Raggi tók einnig 14 fráköst. Baldur setti niður 13 stig og hinn ungi og öflugi Halldór Garðar kom inn af bekknum af krafti eins og Emil frændi hans og skoraði 4 mikilvæg stig í gærkvöldi.