Stórleikur Ragga Nat dugði ekki til gegn Íslandsmeisturunum

IMG_20151019_215232Þór tapaði sínum öðrum leik í Domino’s deildinni í körfubolta þegar liðið sótti Íslandsmeistara KR heim í Vesturbæinn í kvöld. Fjórði leikhlutinn reyndist Þórsurum illa eftir að hafa spilað glimrandi körfubolta fyrstu þrjá leikhlutana gegn sterkasta liði landsins.

Þórsarar mættu svo sannarlega tilbúnir til leiks og geiguðu vart úr skoti fyrstu sex mínútur leiksins og komust í 10 stiga forskot 15-25. Eftir það fór að hægja á Þorlákshafnardrengjunum sem skoruðu einungis þrjú stig á síðustu fjórum mínútum fyrsta leikhluta. Annar leikhlutinn var nokkuð jafn en heimamenn náðu að minnka muninn enn frekar og staðan 42-44 í hálfleik.

Áfram héldu liðin að spila vel í þriðja leikhluta og Þórsarar fóru inn í þann fjórða með tveggja stiga forystu. En þá hrundi því miður allt og KR setti niður 10 stig í röð í upphafi leikhlutans sem reyndist allt of dýrkeypt fyrir Þórsara. Liðið náði ekki að vinna upp það forskot og því 10 stiga sigur Íslandsmeistaranna staðreynd 90-80.

Þrátt fyrir sárt tap þá var Raggi Nat án efa besti maður vallarins í kvöld en hann skoraði 25 stig, tók 17 fráköst og varði 4 skot. Þrjú þessara vörðu skota voru gegn Michael Craion, stórum og sterkum Bandaríkjamanni KR. Algjörlega magnað að fylgjast með honum í kvöld en Þórsarar söknuðu meira framlags frá Vance Hall sem skoraði 13 stig og átti ekki sinn besta leik í seinni hálfleik.

Næsti leikur Þórs er heimaleikur gegn feiknar sterku liði Tindastóls á fimmtudaginn.