Merki íþróttafélaga á sýningu í Gallerí undir stiganum

Rafn GíslasonFimmtudaginn 3. mars opnar Þorlákshafnarbúinn Rafn Gíslason sýningu í Gallerí undir stiganum þar sem hann sýnir merki eða lógó sem hann hefur hannað og teiknað fyrir íþróttafélög bæði hérlendis og erlendis.

Rafn hefur haft áhuga á merkjum frá því hann var unglingur og hafa merki íþróttafélaga átt hug hans að mestu „…ég var mjög virkur í íþróttum þegar ég var yngri og hafði mikinn áhuga á félagsmerkjum og búningum“. Rafn er lærður húsasmiður en hefur ekki getað starfað við iðn sína síðastliðin sjö ár af heilsufarsástæðum. Þegar Rafn gat ekki unnið lengur fór hann að kynna sér gerð merkja í tölvunni. Hann er að mestu sjálfmenntaður í grafískri hönnun en fór á eitt námskeið hjá NTV í Kópavoginum. „Mest hef ég lært af sjálfum mér og notast við kennslubók um notkun teikniforritsins sem ég nota við mína hönnun, teikningu lærði ég svo rétt eins og hver annar nemi í grunnskóla og einnig í iðnnámi mínu“.

Fyrsta merkið sem Rafn hannað og fór í notkun var merki fyrir íþróttafélagið Draupni á Akureyri og fljótlega á eftir komu svo merki fyrir Stál Úlf og UMFG í Grundarfirði. Aðspurður að fjölda teikninga sem hann hefur unnið er Rafn ekki viss „ég hef teiknað eitthvað á milli 25 til 30 merki sem eru í notkun núna hjá fyrirtækjum og félögum og verða þau flest með á sýningunni. Einnig hef ég gert fjöldann allan af merkjum sem eru endurhönnun á núverandi merkjum félaga bæði erlendum og íslenskum. Ég hef enga tölu á hversu mörg þau eru orðin en ég teikna þetta um fjögur til fimm merki á viku“.

Á myndinni hér til hliðar má sjá Rafn með hönnun sína á merki handknattleiksfélagsins Zemaitijos Dragunas í boginni Klaipeda í Litháen. Félagið hefur orðið Litháískur meistari í handbolta síðustu fimm árin í röð og hefur einnig keppt í Evrópukeppninni síðustu árin. „Hönnun þessa merkis er trúlega stærsta verkefnið sem ég hef gert fyrir einstakt félag á ferli mínum sem áhugamaður um hönnun lógóa“.

Sýning Rafns opnar klukkan 18:00 fimmtudaginn 3. mars en sýningin mun standa yfir til mánaðarloka og er opið á opnunartíma bókasafnsins.