Flæði ljóss og lita; handverks- og myndlistarsýning

runaÞað eru mæðgurnar og listakonurnar Kamma Níelsdóttir og Rúna K. Tetzschner sem opna næstu sýningu í Gallerí undir stiganum, sýningarrými Bæjarbókasafns Ölfuss. Kamma er leikskólakennari að mennt, var leikskólastjóri í Garðabæ í mörg ár og rak í heima hjá sér Kömmuskóla, listasmiðju þar sem börn voru markvisst örvuð til sjálfstæðrar listrænnar sköpunar. Hún hefur unnið að handverki í fjölmörg ár. Rúna hefur starfið við ýmislegt, t.d. á sviði fornleifaskráningar og sem kynningarstjóri Þjóðminjasafns Íslands. Hún hefur myndskreytt kort og bækur og gaf út fyrir nokkrum árum fallegu barnabókina Ófétabörnsem hefur verið vinsæl af ungum lestrarhestum bókasafnsins.

Á sýningunni verða sýnd þæfð ullarverk og ævintýramyndir. Tignarlegir ullarskúlptúrar Kömmu eiga sér fyrirmyndir í íslenskum fjöllum og ber við litríkan vegg með silkiskreyttum ullarslæðum sem ljá umhverfinu mýkt og hlýju. Myndir Rúnu birta náttúrufantasíu sem sækir innblástur til umbreytingarorku náttúrunnar og fjalla um gleði manna sem leyfa henni að umvefja sig og uppljóma. Myndirnar fela einnig í sér jákvæð skilaboð.

Sum listaverk höfða til okkar á ákveðinn hátt, okkur líkar við litina, við finnum til vellíðunar af því að horfa á þau o.s.frv. Við þurfum ekki endilega að geta skilgreint með orðum hvers vegna okkur líkar við þau en slík listaverk getur verið gott að hafa í umhverfi okkar. Þau hafa góð áhrif og geta byggt okkur upp.

Sýningin opnar fimmtudaginn 12. maí kl. 18:00 og stendur yfir til 27. maí. Listakonurnar verð á staðnum við opnun sýningar og fólk er hvatt til að koma, skoða og njóta auk þess sem hægt er að kaupa og þiggja kaffi og konfekt.