Ægismenn að öllum líkindum niður um deild – Þurfa kraftaverk

aegir_magni01Ægir tapaði gegn Völsungi þegar liðin mættust á Húsavík í gær í 2. deildinni og þar með eru allar líkur á að liðið falli niður í 3. deild. Lokatölur urðu 4-2 en Ægismenn misstu niður 0-2 forskot á ótrúlegan hátt.

Ægismenn byrjuðu leikinn betur og komust í 0-1 eftir 22. mínútna leik þegar Andri Sigurðsson skoraði. Þannig var staðan í hálfleik en á 66. mínútu bættu Ægismenn í þegar Paul Nicolescu kom liðinu í 0-2 og útlitið mjög bjart. Áfram hélt leikurinn en þegar fjórar mínútur lifðu af venjulegum leiktíma minnkuðu heimamenn muninn og staðan 1-2 eftir 90. mínútna leik.

Í uppbótartíma gerðust ótrúlegir hlutir! Á 91. mínútu jafnar Völsungur leikinn. Það dugði ekki til heldur bættu þeir við þriðja markinu á 94. og síðan fjórða markinu á 95. mínútu og því 4-2 sigur Völsungs staðreynd.

Hræðilegar síðustu 10 mínútur leiksins réðu úrslitum í gær og þurfa Ægismenn nánast kraftaverk til að halda sér í 2. deildinni. Til að halda sætinu í 2. deild þurfa Ægismenn að vinna Magna með 5-10 marka mun og á sama tíma verður KV að tapa fyrir Sindra með 5-10 marka mun.

Ægir fær Magna í heimsókn í lokaumferðinni næstkomandi laugardag kl. 14.