Jón Guðni bestur að mati staðarblaðs Norrköping

Mynd: IFK Norrköping
Mynd: IFK Norrköping

Þorlákshafnardrengurinn Jón Guðni Fjóluson fékk hæstu einkunn í staðarblaðinu Norrköpings Tidningar í Svíþjóð í vikunni. Blaðið gaf öllum leikmönnum IFK Norrköping einkunn og eins og fyrr segir fékk Jón hæstu einkunn allra leikmann liðsins á nýafstöðnu tímabili.

Jón Guðni gekk til liðs við sænsku meistarana IFK Norrköping fyrir um ellefu mánuðum síðan en blaðið hrósar honum fyrir framgöngu sína hjá liðinu sem hefur farið í gegnum miklar breytingar á þessum ellefu mánuðum. En liðið skipti út mörgum byrjunarliðsmönnum sem og þjálfaranum.

Útlit var fyrir að Jón Guðni myndi ekki klára tímabilið vegna alvarlegs höfuðhöggs sem hann hlaut í forkeppni meistaradeildarinnar í júlí. Hann sneri þó til baka í lok október eftir þriggja mánaða fjarveru og kláraði tímabilið með IFK Norrköping sem hafnaði í 3. sæti deildarinnar.