Digiqole ad

ÍR hafði betur í Icelandic Glacial Höllinni

 ÍR hafði betur í Icelandic Glacial Höllinni

Þórsarar tóku á móti spræku ÍR liði í kvöld í Icelandic Glacial Höllinni. Liðin bæði að berjast um sem besta stöðu fyrir úrslitakeppnina og liðin nálægt hvort öðru í deildinni en Þórsarar sátu í 5.sæti fyrir leik með 20 stig og ÍR var í 7.sæti með 18.

Lítið gerðist í fyrsta leikhluta og voru skotin ekki að detta niður hjá liðunum, varnir beggja liða voru flottar og greinilegt að stutt er í úrslitakeppni þar sem liðin voru að spila mjög stífan varnarleik.

Annar leikhluti var mikið líflegri og fóru bæði lið að leggja meira púður í sóknina. Mikið af flottum körfum skoraðar í þessum leikhluta og staðan 34-28 í lok leikhlutans.Tobin Carberry var stórkostlegur í fyrri hálfleik og var kominn með 17 stig þegar flautað var til hálfleiks.

Seinni hálfleikur hélt uppteknum hætti og var mikil spenna yfir leiknum. Þórsarar náðu að skera sig aðeins frá þeim í byrjun 3.leikhluta en ÍR-ingar gáfust ekkert upp og komust aftur inn í leikinn.

Í fjórða leikhluta gáfu ÍR allt í botn og tóku 13-0 kafla sem virtist erfiður heimamönnum, ekkert gekk upp og ÍR-ingar gengu á lagið. Þórsarar fengu einn séns til þess að jafna leikinn í lokinn en fóru aldeilis illa að ráði sínu og brást þeim bogalistin.

Stigaskor Þórsara skiptist svona Tobin Carberry 27, Maciek Baginski 12, Ólafur Helgi Jónsson 11, Ragnar Örn Bragason 8, Emil Karel Einarsson 7, Halldór Garðar Hermannsson 6.

Næsti leikur Þórsara er á sunnudaginn næsta gegn Skallagrím í Borgarnesi. Rosalegur slagur sem Þórsarar verða að vinna en Borgnesingar eru að spila fantavel núna.

AÖS