Ægismenn með góðan sigur gegn Reyni Sandgerði

Ægismenn unnu góðan 3-5 sigur á Reyni Sandgerði á laugardaginn í síðasta leik liðsins í Lengjubikarnum í knattspyrnu.

Leikurinn byrjaði vel fyrir Ægi en liðið skoraði tvö mörk strax í upphafi leiks. Gunnar Bent skoraði bæði mörkin á 1. og 4. mínútu leiksins. Reynir minnkaði í 1-2 eftir 20 mínútna leik en á 30. mínútu bætti Gunnar Orri við þriðja marki Ægis. Reynismenn minnkuðu muninn rétt fyrir hálfleik og staðan 2-3 þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik.

Reynismenn komu sterkir til leiks í seinni hálfleik og jöfnuðu í 3-3 á 61. mínútu. Ægismenn neituðu að sætta sig við jafntefli og á 85. mínútu kom Gunnar Orri Ægi í 3-4. Þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum innsiglaði síðan Þorbergur Böðvar 5-3 sigur Ægismanna.