Ægismenn grátlega nálægt því að jafna á Vopnafirði

Jonathan Hood skoraði örugglega úr víti í dag. Mynd: Einherji TV

Ægismenn sóttu topplið Einherja heim á Vopnafjörð í dag í 3. deildinni í fótbolta og svo fór að heimamenn tóku stigin þrjú eftir 2-1 sigur.

Jafnt var með liðunum framan af fyrri hálfleik en á 39. mínútu fengu Ægismenn dæmda á sig hendi í eigin vítateig. Einherji fékk vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr en Magnús Kristófer markmaður Ægis var nálægt því að verja. Einbeiting Ægismanna virtist slokkna við þetta mark því einungis 4 mínútum seinna bættu heimamenn við öðru marki sínu og staðan 2-0 í hálfleik.

Ægismenn gerðu hvað þeir gátu til að komast aftur inn í leikinn og gerðu til að mynda fjórfalda skiptingu á 69. mínútu. Það dró síðan til tíðinda á 76. mínútu þegar leikmaður Einherja fékk dæmda á sig hendi í eigin vítateig eftir flotta sókn Ægis. Jonathan Hood fór á punktinn og skoraði örugglega úr vítinu og staðan orðin 2-1.

Ægismenn voru mun beittari það sem eftir lifði leiks og voru nokkrum sinnum nálægt því að jafna metin. Á lokasekúndu uppbótartíma björguðu heimamenn á marklínu og því svekkjandi 2-1 tap á Vopnafirði staðreynd.

Eftir leikinn sitja Ægismenn í 8. sæti með einungis eitt stig eftir þrjár umferðir í 3. deildinni. Næsti leikur liðsins er á miðvikudaginn í Þorlákshöfn þegar Víkingur Reykjavík mætir í heimsókn í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar og hefst leikurinn kl. 19:15.