Þórsarar geta unnið þriðja leikinn í röð í kvöld

Í kvöld fer fram mjög mikilvægur leikur fyrir Þórsara í Domino’s deildinni í körfubolta þegar nafnar þeirra frá Akureyri koma í heimsókn til Þorlákshafnar. Jafnframt er um að ræða síðasta heimaleik Þórsara fyrir jól.

Þórsarar hafa nú unnið síðustu tvo leiki sína í deildinni og geta styrkt stöðu sína enn frekar ef liðinu tekst að vinna þriðja leikinn í röð. Akureyringar hafa aftur á móti staðið í mörgum liðum í vetur og má því alls ekki vanmeta þá.

Með sigri í kvöld fara Þórsarar uppfyrir Val í 9. sæti deildarinnar en með tapi fara Þórsarar aftur á móti niður fyrir Þór Akureyri í 11. sæti, sem er jafnframt fallsæti. Það er því um mjög mikið að keppa í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 og tilvalið fyrir Þorlákshafnarbúa að fjölmenna á völlinn og hvetja okkar menn áfram.