Allir spiluðu í öruggum sigri Þórs gegn Hetti

Þórsarar spiluðu flottan leik í kvöld þegar þeir fengu Hött í heimsókn í Domino’s deildinni í körfubolta. Lokatölur urðu 94-66 Þórsurum í vil.

Allir leikmenn Þórs komu við sögu í kvöld og dreifðust mínúturnar vel á milli leikmanna.

Chaz Williams átti virkilega góðan leik en hann skoraði 28 stig og gaf 5 stoðsendingar. Fyrirliðinn Emil Karel var næstur með 17 stig og frændi hans, Halldór Garðar, bætti við 15 stigum og gaf 7 stoðsendingar. Davíð Arnar skoraði 11 stig, Þorsteinn Már 7, Adam Eiður 6, Styrmir Snær og Snorri skoruðu sitthvor 4 stigin og Benedikt Þorvaldur setti 2.

Næsti leikur Þórsara er á sunnudaginn þegar liðið leggur land undir fót og mætir nöfnum sínum á Akureyri kl. 19:15.