Vonast til að virkja sem flesta í nýstofnuðu tónlistarfélagi

Frá fyrsta fundi Tónlistarfélags Ölfuss. Ljósm: Ása Berglind

Róbert Dan er Ölfusingur vikunnar að þessu sinni. Hann ásamt Gesti Áskelssyni áttu frumkvæðið að stofnun Tónlistarfélags Ölfuss en fyrsti fundur þess var haldinn í febrúar og í framhaldinu stofnaður hópur á facebook. ,,Þetta er félag án stjórnar en með skipaða framkvæmdahópa eftir verkefnum. Við leggjum ríka áherslu að sameina sem felsta hvort sem það kemur að flutningi á tónlist eða framkvæmd viðburða.“ segir Róbert aðspurður um hlutverk Tónlistarfélags Ölfuss.

Fullt nafn:
Róbert Dan Bergmundsson

Aldur:
Það styttist í 45. árið

Fjölskylduhagir:
Giftur Guðlaugu Einarsdóttur Börn: Sesselía Dan, Berglind Dan, Einar Dan og þar að auka einn tengdason, Gunnar Bjarna Oddsson

Starf:
Deildarstjóri upplýsingatæknisviðs hjá Pennanum.

Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma?
Alveg síðan 1985, með millilendingu í Reykjavík í um 3 ár.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?
Grjónagrautur og slátur, ekki með rjóma eða rúsínum.

Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún?
AA bókin, það ættu allir að lesa hana.

Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur?
Gladiator

Hvað hlustar þú mest á?
Mest á Guðlaugu og svo íslenska tónlist.

Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi?
Þorlákshöfn, heima er best.

Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf?
Ríf upp kassagítarinn og spila lagið Glaðasti hundur í heimi.

Hver er þín helsta fyrirmynd?
Sagt er að maður eigi að vera besta útgáfan af sjálfum sér, hvernig get ég það ef ég vil vera eins og einhver annar 🙂 Annars á ég þær nokkrar, fer eftir hvað um ræðir, hljóðfæraleik, almenna kurteisi, sýn á lífið og þar eftir götunum.

Hvaða lag fær þig til að dansa?
Þau eru fá, en ég tvista til að gleyma.

Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin?
Er ég að fara missa kúlið við svarið á þessari?…En annars eru það aðstæður tengdar mínum nánustu. Konu og börnum.

Hvað elskar þú við Ölfus?
Umhverfið og fólkið sem það hefur að geyma.

Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar?
Það sárvantar opna æfingaaðstöðu fyrir tónlistarfólk. Skiptir máli að styðja vel við þá menningu því við erum rík af henni. Svo er kominn tími til að ná til okkar alvöru hátæknifyrirtæki.

Hver er uppáhalds æskuminningin þín?
 Þegar ég heimsótti föður minn í fyrsta skipti.

Hvert dreymir þig um að fara?
hummm….Amazon frumskóginn

Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega?
Ef lífið dinglar þá ferðu til dyra.

Hvað er framundan hjá þér?
Fyrir utan að stunda mína vinnu og spila með hljómsveitinni Made In Sveitin er ég að taka við skipunum frá Guðlaugu með að bora fyrir mynd, hengja upp hillur og veita ráðleggingar í litavali 🙂 Svo vonast ég til að ná að virkja sem flesta í Ölfusi til að taka þátt í ný stofnuðu tónlistarfélagi. 

Eitthvað að lokum?
Já ef það er einhver þarna úti sem hefur húsnæði fyrir ný stofnað tónlistarfélag til æfinga þá má hinn sami endilega hafa samband við mig 😊