Larry Thomas til liðs við Þórsara

Þórsarar hafa samið við bandaríska leikstjórnandann Larry Thomas um að leika með liðinu í Dominos deildinni í körfubolta í vetur.

Larry Thomas hefur spilað á Íslandi síðustu ár og lék á síðasta tímabili með Breiðablik í fyrstu deildinni þar sem hann skoraði að meðaltali 24 stig, tók 10 fráköst og gaf 6 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Lárus Jónsson þjálfari Þórs þekkir vel til Larry Thomas en Lárus þjálfaði hann hjá Þór Akureyri tímabilið sem Akureyringar unnu 1. deildina árið 2019.

Fyrir voru Þórsarar búnir að semja við Jahii Carson en hann mun ekki leika með liðinu sökum óvissunnar á þessum Covid-tímum.