Þórsarar byrja tímabilið á sannfærandi sigri á Haukum

Þórsarar byrja Domino´s deildina af miklum krafti þennan veturinn með flottum sigri á Haukum í gærkvöldi 105-97.

Heilt yfir voru Þórsarar með góð tök á leiknum og leiddu mestan part leiksins þó svo lokatölurnar gefa kannski annað til kynna.

Þórsarar voru án Halldórs Garðars í þessum leik en þar munar um minna. Allir leikmenn Þórs sem komu við sögu í leiknum spiluðu yfir 20 mínútur og skiluðu flottum tölum.

Larry Thomas var frábær í gærkvöldi með 30 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Ragnar Örn bætti við 15 stigum og tók 8 fráköst, Callum Lawson 15 stig og 7 fráköst, Emil Karel 13 stig. Adomas Drungilas skoraði 13 stig, tók 9 fráköst og gaf 9 stoðsendingar, Styrmir Snær átti góðan leik og skoraði 10 stig og Davíð Arnar skoraði 9 stig.

Næsti leikur Þórs er á föstudaginn eftir viku gegn Keflavík í Keflavík.