Dropinn holar steininn

Samgöngur eru okkur Ölfusingum afar mikilvægar enda sækir stór hluti íbúa hér vinnu í önnur sveitarfélög. Í ofanálag er mikill flutningur á hvers kyns varningi um sveitarfélagið í tengslum við inn- og útflutning frá höfninni í Þorlákshöfn. Samgöngubætur eru því eðlilega eitt stærsta hagsmunamál íbúa og þar með eitt af stærstu verkefnum bæjarstjórnar og bæjarstjóra. Mikill tími kjörinna fulltrúa og bæjarstjóra fer í að koma sjónarmiðum íbúa á framfæri við þingmenn og embættismenn en eins og flestir vita eru samgöngur utan þéttbýlis á forræði ríkis en ekki sveitarfélaga. Það er því gaman að segja frá því að mikill árangur hefur náðst í málaflokknum á yfirstandandi kjörtímabili.  

Hafnarframkvæmdir
Í desember 2018 skrifaði ég grein í Hafnarfréttir undir yfirskriftinni „Flöskuháls atvinnuþróunnar á Suðurlandi.“ Þar talaði ég um mikilvægi þess að tryggja fjármagn til áframhaldandi eflingar og uppbyggingar hafnarinnar. Síðan þá hefur margt gerst. Fljótlega eftir að þessi umrædda grein birtist sendi ég inn umsókn til Sóknaráætlunar Suðurlands um að gera úttekt á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum af uppbyggingu hafnarinnar. Sú umsókn var samþykkt og til varð skýrslan „Ferjuhöfnin Þorlákshöfn – Efnahagsleg og samfélagsleg áhrif af uppbyggingu Þorlákshafnar“ sem reyndist síðar mikilvægt gagn í áframvinnslu málsins. Með miklu harðfylgi náðist að koma breytingum á Þorlákshöfn inn á samgönguáætlun og með því fylgdi töluvert fjármagn. Hönnun hafnarinnar er nú að mestu lokið, tímalína framkvæmda farin að taka á sig mynd, hluti framkvæmdarinnar nú þegar komin í útboð og framkvæmdir í þann mund að hefjast.

Vegabætur
Þó hafnarframkvæmdir hafi eðlilega verið mikið forgangsatriði núverandi meirihluta þá höfum við ekki látið okkar eftir liggja hvað varðar að þrýsta á úrbætur á vegakerfi sveitarfélagsins. Nú standa yfir miklar framkvæmdir á þjóðvegi 1 sem liggur í gegnum Ölfusið frá Kömbum að Selfossi. Sú framkvæmd er gríðarlega mikilvæg enda tryggir hún öryggi þeirra sem um hann fara og þá sérstaklega íbúa dreifbýlis Ölfuss. Nú er svo komið að úrbótum á Þorlákshafnar- og Þrengslavegi. Umferð þar hefur aukist mjög að undanförnu samhliða auknum umsvifum hafnarinnar og auðvitað fjölgun íbúa hér í Þorlákshöfn. Með aukinni umferð hefur aukin hætta skapast á umræddum vegum og morgunljóst að þeir standa ekki undir stóraukningu á þungaflutningum til og frá Þorlákshöfn. Það er því gríðarlega ánægjulegt að sjá að framkvæmdir við endurmótun Þorlákshafnarvegar og lagfæringar á Eyrarbakka afleggjara séu hafnar. Framkvæmdin, sem telur ríflega 240 milljónir króna, felur í sér lagningu að- og fráreinar við Eyrarbakka afleggjara ásamt styrkingu, breikkunar og lagningu nýs malbiks á hluta af Þorlákshafnarvegi.

Áfram skal haldið
Mikilvægt er að áfram verði haldið í samgöngubótum í okkar stóra sveitarfélagi.  Eðlileg næstu skref eru að gatnamótin við Þrengslaafleggjara (þar sem beygt er til Hveragerðis) verði bættur á sama máta og nú er verið að gera við afleggjarinn upp að Eyrarbakka.  Þá er sjálfsagt að sett verði upp lýsing við gatnamótin þar sem beygt er af Þjóðvegi 1 í átta að Þrengslunum.  Þá er löngu tímabært að byrjað verði að undirbúa endurbætur á veginum um Þrengslin og hann tvöfaldaður enda sá vegur ekki hannaður til að annast þá miklu flutninga sem um hann fara í dag.

Verkefnunum er sem sagt hvergi nærri lokið en það sannast enn og aftur hið fornkveðna að dropinn holar steininn!

Grétar Ingi Erlendsson