„Rétti tíminn fyrir mig að prófa eitthvað nýtt og fá nýja áskorun“

Halldór Garðar Hermannsson mun ekki leika með Íslandsmeisturum Þórs á næstu leiktíð þar sem hann skrifaði undir tveggja ára samning við Keflavík í gær.

Halldór er fæddur og uppalinn í Þorlákshöfn og hefur spilað allan sinn feril með Þórsurum. Þá hefur hann spilað með öllum yngri landsliðshópum Íslands og gert tilkall í A-landsliðið.

„Ég er að flytja í Reykjanesbæ og fannst þetta vera rétti tíminn fyrir mig að prófa eitthvað nýtt og fá nýja áskorun,“ sagði Halldór Garðar þegar Hafnarfréttir slógu á þráðinn en kærasta hans er úr Reykjanesbæ og hefur hann haft þar annan fótinn undanfarin ár.

Halldór Garðar er þakklátur fyrir öll árin hjá Þórsurum. „Ég vill bara þakka fyrir mig. Það hefur verið ótrúlega skemmtilegt að spila fyrir Þór öll þessi ár og að enda það með Íslandsmeistaratitli með allt sveitarfélagið á bakvið okkur var alveg ólýsanlegt. Þór í þúsund ár!“

Hafnarfréttir óska Halldóri velfarnaðar með Keflavík og mun hann án efa gera frábæra hluti þar eins og hann hefur gert fyrir Þórsara.