Sigur í toppslagnum

Ægismenn unnu virkilega flottan 2-1 sigur á Völsungi fyrr í dag og styrktu þannig stöðu sína í 2. deildinni. Okkar menn voru betra liðið allan leikinn ef frá eru taldar fyrstu mínútur leiksins þegar Völsungur komst yfir eftir skyndisókn.

Ægismenn létu þetta ekki slá sig út af laginu og pressuðu vel að marki Völsungs og rétt fyrir hálfleik jafnaði Dimi leikinn fyrir Ægismenn. Ægir var einnig sterkari aðilinn í síðari hálfleik og bætti Dimi við öðru marki sem tryggði Ægi þrjú stig.

Ægir situr því á toppnum, ásamt Njarðvík, með 16 stig eftir sex leiki. Næsti leikur Ægis er á móti KF laugardaginn 18. júní á heimavelli.