Öruggur sigur Ægis í toppslag

Ægismenn unnu virkilega sterkan sigur gegn Þrótti í 2. deildinni í fótbolta á Þorlákshafnarvelli í gærkvöldi.

Renato Punyed Dubon kom Ægismönnum yfir á 39. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu í skeytin fjær. Ágúst Karel kom Ægismönnum í 2-0 á lokamínútu fyrri hálfleiks með frábæru marki.

Þróttarar komu grimmir til leiks í síðari hálfleik en gleymdu sér aðeins og Cristofer Moises Rolin kom sér í gott færi og smellti boltanum í fjær á 53. mínútu.

Gestirnir dældu mikið af löngum boltum fram í leit að marki en Ægismenn áttu ekki í neinum vandræðum með það og komumst margoft í góðar stöður til að refsa Þrótturum og bæta við mörkum en tókst það ekki, svo þar við sat.

3-0 öruggur sigur Ægismanna, sem eru núna í 2. sæti deildarinnar með betri markatölu en Þróttur í 3. sæti.