Ungir Ölfusingar að gera góða hluti

bergin01Á undanförnum vikum hefur mikið borið á jákvæðum fréttum af unga fólkinu okkar. Það er svo sem ekkert nýtt að jákvæðar fréttir berist úr þeirri átt en upp á síðkastið hafa þær verið óvenju margar.

Á þessum fréttum má sjá hve vel er staðið að málefnum ungs fólks í sveitarfélaginu og hversu góða þjónustu er verið að bjóða upp á. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða íþrótta- og æskulýðsmál, fræðslumál eða tónlistarnám. Þessu til rökstuðnings bendum við á árangur Aðalbjargar Ýrar í FSu en hún var dúx skólans og einnig lauk hún framhaldsskólaprófi í trompetleik. Annað gott dæmi er árangur Halldórs Garðars með U18 landsliðinu í körfubolta en þar fór hann á kostum. Styrmir Dan er enn annað dæmi en það líður varla sá mánuður þar sem ekki kemur frétt um að hann hafi bætt eitthvað íslandsmet. Einnig á hann möguleika á að keppa á Ólympíuleikum æskunnar í ár.

Erlendur Ágúst Stefánsson var valinn besti ungi leikmaður 1. deildar en hann var lykilmaður í liði FSu sem tryggði sér sæti í Domino’s deildinni. Einnig hlaut Erlendur viðurkenningu frá FSu fyrir frábæra ástundun, frammistöðu og að vera góð fyrirmynd í heilsueflingu við skólann. Svo má ekki gleyma að nefna gleðigjafana fimm sem glöddu íbúa með því að líma jákvæð skilaboð á bíla í bænum.

Það má telja upp fleira eins og það að áttundi flokkur körfuknattleiksdeildar Þórs varð HSK meistarar. Sameiginlegt lið Þórs og Grindavíkur varð íslandsmeistari í drengjaflokki í körfu o.fl. Öll þessi ungmenni eiga það sameiginlegt að hafa alist upp í sveitarfélaginu okkar.

Við megum ekki gleyma öllu því jákvæða sem er að gerast í samfélaginu og nauðsynlegt er að minna hvort annað á það öðru hverju.