Á síðasta degi ársins er vert að líta um öxl og fara yfir það sem gerðist á árinu. Árið 2016 hefur verið það aðsóknarmesta á Hafnarfréttum frá upphafi.
Hér að neðan má sjá 10 mest lesnu fréttir ársins.
1. Finnur: „Maður hafði oft hugsað að maður væri alveg nautheimskur“
Finnur Andrésson sagði í viðtali við Hafnarfréttir frá baráttu sinni við lesblindu og athyglisbrest og áhuga sinn á að hjálpa börnum sem standa í hans sporum.
2. Reyndi að hrifsa barn inn í bíl til sín
Á Facebook-síðunni „Íbúar í Þorlákshöfn“ voru foreldrar barna í Þorlákshöfn varaðir við einstaklingi sem reyndi að lokka til sín börn.
3. Ólína Þorleifsdóttir nýr aðstoðarskólastjóri
Ólína Þorleifsdóttir var ráðin aðstoðarskólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn í mars. Fjórir sóttu um stöðuna.
4. Ætla að opna hótel og afþreyingarfyrirtæki í Þorlákshöfn
Einar Sigurðsson og fjölskylda stefna á að opna hótel og afþreyingarfyrirtæki í Þorlákshöfn á næsta ári og er undirbúningur vel á veg kominn.
5. Forseti Íslands skellti sér í sund í Þorlákshöfn
Guðni Th. Jóhannesson skellti sér í sund til Þorlákshafnar í blíðviðri í ágúst. Samkvæmt heimildum tók hann pottaspjall við sundlaugargesti.
6. „Þeir neyða í raun og veru þessi smærri fyrirtæki til þess að selja kvótann“
Ólafur Arnarson, hagfræðingur, sagði í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 að bankarnir væru markvisst að reyna að færa veiðiheimildir frá smærri útgerðarfyrirtækjum til þeirra stærri. Þá sagði hann vinnubrögð Landsbankans í kringum söluna á heimildum Hafnarness Vers til HB Granda vera í líkingu við Borgunarmálið.
7. Brjálað stuð á Suðurlandsskjálftanum í gær – myndasafn
Félagsmiðstöðin Svítan stóð fyrir Suðurlandsskjálftanum í maí. Um er að ræða lokaball félagsmiðstöðvanna á Suðurlandi og var mikið líf og fjör eins og myndirnar sýna.
8. Ægismenn taka til hendi fyrir fyrrum fyrirliða félagsins
Ægismenn létu alla innkomu af leiknum gegn Hetti í ágúst renna til fjölskyldu Liam John Michael Killa, fyrrum leikmanns liðsins. Rúmlega eins árs gamall sonur hans glímir við mjög sjaldgæfan sjúkdóm.
9. Frábærar loftmyndir af Þorlákshöfn – myndasafn
Baldvin Agnar Hrafnsson, fyrrum Þorlákshafnarbúi, sendi Hafnarfréttum stórglæsilegar ljósmyndir af fallega bænum okkar teknar úr lofti með dróna.
10. 28 sóttu um starf markaðs- og menningarfulltrúa
Barbara Guðnadóttir lét af störfum sem markaðs- og menningarfulltrúi Ölfuss á árinu. Í júní birtum við frétt þar sem nöfn allra umsækjenda um stöðu markaðs- og menningarfulltrúa voru birt. Síðar var Katrín Ósk Sigurgeirsdóttir ráðin í stöðuna.